Búnaðarfélag Skorradalshrepps

Saga Búnaðarfélags Skorradalshrepps

Fyrstu heimildir um Búnaðarfélag Skorrradalshrepps eru lög sem samþykkt voru á félagsfundi 10. júlí 1882 en ekki er vitað hvenær það var stofnað.

Til eru fundargerðarbækur frá 1884 og ná yfir öll árin til þessa dags. Fyrsta fundargerðin sem til er er frá 14. júní 1884. Þá eru félagsmenn 14.

Árið 1931 eru samþykkt ný lög fyrir félagið og eru þau í gildi til 2002 en þá voru þau endurskoðuð. þau segja í 1. gr.: Félagið heitir Búnaðarfélag Skorradalshrepps. Heimili þess og varnarþing er heimili formanns. 2. gr.: „Tilgangur félagsins er að vinna að framförum í hreppnum.“ í 3. gr. segir: „Félagar geta allir orði sem greiða árs- eða ævitillag.: 4. gr. segir: „Aðalfund skal halda árlega á tímabilinu 1. janúar til 30. apríl árhvert, hann er lögmætur ef 1/3 félagsmanna mætir. Í 5. gr. Stjórn félagsins skipa 3 menn sem eru kosnir á aðalfundi til þriggja ára í senn. Gengur einn þeirra úr árlega. Þá skal kosinn skoðunnarmaður ársreiknings til tveggja ára. Stjórn og skoðunnarmenn má endurkjósa, þó er enginn skildugur að taka við endurkostningu fyrr en liðið er jafn langur tími og hann hefur sitið í stjórn. Stjórnin kýs formann úr sínum hópi. Stjórnin sér um fjárreiður félagsins og aðrar framkvæmdir þess. Hún skal leggja skoðaðan ársreikning fyrir hvern aðalfund þess. 6. gr.: Vilji einhver segja sig úr félaginu skal hann tilkynna það formanni skriflega fyrir aðalfund annars telst hann félagsmaður það ár. 7. gr.: Leggist Búnaðarfélag Skorradalshrepps niður skal síðasta stjórn þess afhenda hreppsnefnd fjármuni þess og önnur plögg til geymslu þar til annað félag yrði stofnað innan hreppsins sem starfaði á sama grundvelli og Búnaðafélgaið gerði. Fjármunir skulu ávaxtast með traustum hætti. Heimilt er að sameina Búnaðarfélga Skorradalshrepps öðrum búnaðarfélögum. Þarf slík sameingin að samþykkjast á lögmætum aðalfundi og þrír fjórðu fundarmanna að greiða atkvæði með sameiningunni. Félagar Búnaðarfélags Skorradalshrepps halda réttindum sínum í nýju félagi.

8. gr.: Lögum þessum má breyta á lögmætum aðalfundi ef þrír fjórðu fundarmanna greiða aktvæði með breytingunni. 9. gr.: Með lögum þessum falla úr gildi lög félagsins em  samþykkt voru á fundi félagsins 14. apríl 1931 og aðrar samþykktir sem brjóta í bága við lög þessi.

Verkfæraeign félagsins

Fyrsta verkfærið sem félagið kaupir er krókindaherfi og er það keypt 1922. 1925 er síðan keyptur plógur. þessi verkfæri lánaði svo félagið félagsmönnum. Árið 1931 er verkfæraeign félagsins: plógur, diskaherfi, tindaherfi og valtamót. Á næstu árum fara bændur svo að kaupa sér hestaverkfæri, og fengu þeir styrk úr verkfærakaupasjóði í gegnum félagið. 1936 kaupir félagið spunavél og var byggt yfir hana í Efri-Hrepp og húsið hitað upp með heitu vatni sem þar var.
Í dag er verkfæraeign félagsins orðin aðeins meiri og leigir félagið út eftirtalinn verkfæri: Sturtuvagn, valta og staurabor. Einnig er til hjá félaginu svokallaður kafari en hann er hægt að nota til að veiða í gegnum ís á vatni.