| |
1. 2309008 - Sameiningarmál | |
PD og ÓRÁ leggja fram meðfylgjandi bókun. "Við þökkum fyrir þessa beiðni 22 íbúa Skorradalshrepps og leggjum til að íbúafundur verði haldinn innan mánaðar til þess að fara yfir sameiningarmál sveitarfélagsins. Vísast annars í bréf íbúanna."
JEE, KJ og GE leggja fram meðfylgjandi bókun. Meirihluti hreppsnefndar Skorradalshrepps þakkar undirrituðum fyrir bréf, dags. í desember 2023, en í því er óskað eftir íbúafundi áður en formlega ferlið fer af stað, og fagnar nefndin jákvæð og áhugasöm viðbrögðum varðandi sameiningarmál Skorradalshrepps og Borgarbyggðar. Áréttað er að enn er um óformlegar viðræður að ræða að hálfu Skorradalshrepps og Borgarbyggðar og eru bæði sveitarfélögin opin fyrir þeim möguleika að önnur sveitarfélög taki þátt í viðræðunum. Í þessum fasa getur sveitarfélag sagt sig frá viðræðunum án afleiðinga.
Meirihluti hreppsnefndar telur nauðsynlegt að fá verkefnastjóra með mikla reynslu af sameiningum sveitarfélaga til að gera tillögu að kostum og göllum þess að sameina sveitarfélögin Skorradalshrepp og Borgarbyggð, m.a. umfram sameiningu við önnur sveitarfélög. Þegar sú tillaga liggur fyrir verður haldinn íbúafundur fyrir íbúa Skorradalshrepps og er áætlað að sá fundur verði um mánaðamótin janúar/febrúar. Nauðsynlegt er að verkefnastjóri leiði fundinn því hann er sá aðili sem getur svarað praktískum spurningum varðandi sameiningarferlið, byggt á reynslu sinni og kunnáttu. Ástæða þess að KPMG varð fyrir valinu er vegna mikillar reynslu af sameiningarmálum og góðra umsagna annarra sveitarfélaga sem hafa farið og eru að fara í gegnum þetta ferli. Formlegar viðræður hefjast ekki fyrr en að loknum íbúakosningum og þá fyrst eru sveitarfélögin búin að skuldbinda sig í viðræðum. Hreppsnefndin mun ekki fara í slíkt tímafrekt og bindandi ferli nema meirihluti íbúa sé samþykkur því. Meginástæða þess að meirihluti hreppsnefndar valdi að fara í óformlegar sameiningarviðræður við Borgarbyggð er að öll sú þjónusta sem Skorradalshreppur getur ekki veitt íbúum er keypt af Borgarbyggð. Nú þegar eru fá börn í dalnum á grunnskólaaldri og eftir eitt og hálft ár er fyrirsjáanlegt að aðeins eitt barn verði í grunnskóla, að óbreyttu, en vissulega horfir meirihluti hreppsnefndar til framtíðar með von um uppbyggingu og fjölgun ungra íbúa. Með framangreint að leiðarljósi telur meirihluti hreppsnefndar það vera afturför að senda börn um langan veg í grunnskóla annarra sveitarfélaga en Borgarbyggðar. Auk þess er Skorradalshreppur hlutaðeigandi aðili í Brákarhlíð og á erfitt með að sjá fyrir sér að öldruðum íbúum Skorradalshrepps hugnist að búa á öðrum hjúkrunarheimilum en Brákarhlíð. Íbúar Skorradalshrepps sækja sér margir hverjir þjónustu til Borgarbyggðar, aðallega út af því að þangað er styst um veg að fara og er að mati hreppsnefndar sérstaklega mikilvægt að hafa það í huga, aðallega varðandi þjónustu við börn og aldraða. Meirihluti hreppsnefndar hyggst því halda áfram með óformlegar sameiningaviðræður með framtíðarsýn að leiðarljósi, stolt og hag þeirra íbúa sem búa og þrífast í dalnum og þurfa á margs konar grunnþjónustu að halda allan ársins hring. Ítrekað er að fljótlega á nýju ári verður haldinn íbúafundur þar sem farið verður yfir kosti og galla þess að sameinast Borgarbyggð og kallað eftir afstöðu íbúa sveitarfélagsins.
Meirihluti hreppsnefndar vill benda á að framkvæmdin við undirskriftasöfnun var ekki í samræmi við reglugerð um undirskriftasafnanir vegna óska um borgarafundi samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 154/2013, sbr. 4. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og hafnar því að halda íbúafund sem fyrst án aðkomu verkefnastjóra. Sem væri óábyrgt og óupplýsandi af hálfu hreppsnefndar.
| Erindi til hreppsnefndar.pdf | | |
|
2. 2309008 - Sameiningarmál | |
PD og ÓRÁ leggja fram eftirfarandi bókun.
Á fundi hreppsnefndar Skorradalshrepps þann 20. september s.l. var samþykkt að fara í svokallaða valkostagreiningu en það er ferill við könnun á sameiningarvalkostum sem Innviðaráðuneytið hefur sett upp. Í frétt frá oddvita á heimasíðu Skorradalshrepps stendur meðal annars í tengslum við umræðu um sameiningarmál “Með öðrum orðum þá munum við fylgja því ferli sem innviðarráðuneytið gefur út í sambandi við þessi mál í einu og öllu og vanda til verka. Á vef Innviðaráðuneytisins stendur m.a. annars um valkostagreiningu sem er ferill áður en lagt er af stað í óformlegar viðræður. ( sjá tengil hér að neðan) (https://www.stjornarradid.is/verkefni/sveitarstjornir-og-byggdamal/sveitarstjornarmal/sameining/sameining/ ) Eftirfarandi texti er tekinn af vef Innviðaráðuneytisins.
„Valkostagreining
Þegar sveitarstjórnir ákveða að skoða möguleika á sameiningu sveitarfélags við eitt eða fleiri sveitarfélög liggja sameiningarkostir oft beint við, t.a.m. í ljósi reynslu sveitarfélags af samvinnu við önnur sveitarfélög um lögbundin eða ólögbundin verkefni, landfræðilegrar legu eða annarra þátta. Í öðrum tilvikum koma fleiri en einn valkostur til greina. Þegar svo háttar til er oft tekin ákvörðun um að láta gera svokallaða valkostagreiningu fyrir sveitarfélagið. Valkostagreining felur í sér samtal við sveitarstjórn og íbúa um styrkleika, veikleika, ógnir og tækifæri sveitarfélagsins, áherslur sveitarfélagsins í tengslum við sameiningu og mat á helstu sameiningarkostum.
Dæmi um ferli valkostagreiningar:
1 Vinnustofa með sveitarstjórn um ferlið framundan, áherslur sveitarfélaga í sameiningarferlum og mögulega sameiningarkosti sveitarfélagsins. 2 Vinnustofa með sveitarstjórn um styrkleika, veikleika, ógnir og tækifæri sveitarfélagsins. Farið yfir upplýsingar um áherslur og lykilþætti í starfsemi sveitarfélaga sem kemur til greina að sameinast. 3 Íbúafundur þar sem leitast er við að leita álits íbúa um hvað skipti þá mestu máli. 4 Vinnustofa með sveitarstjórn þar sem helstu niðurstöður vinnunnar að ofan eru dregnar saman. 5 Skilafundur þar sem helstu niðurstöður eru kynntar fyrir sveitarstjórn.
Góð valkostagreining felur í sér virka þátttöku kjörinna fulltrúa, starfsfólks og íbúa í sveitarfélaginu. Með sama hætti er gagnlegt að leita til landshlutasamtaka og þróunarfélaga í viðkomandi fjórðungi eftir þekkingu og reynslu.
Jarðvegur kannaður
Þegar sveitarfélag hefur í ljósi greiningar, valið og fengið jákvæð viðbrögð frá öðru/m sveitarfélögum um að kanna jarðveg sameiningar er hægt að hefja óformlegar sameiningarviðræður. Slíkar viðræður af því tagi fela í sér mat á stöðu sveitarfélaganna, sameiningu og því hvort viðkomandi sveitarstjórnir eru sammála um meginatriði. Sveitarstjórnir geta dregið sig til baka úr óformlegum sameiningarviðræðum án þess að slíkt dragi dilk á eftir sér.“ (Tilvitnun lýkur)
Eins og áður kom fram samþykkti hreppsnefnd Skorradalshrepps að vinna slíka valkostagreiningu á fundi sínum 20. september s.l. Einnig er það ítrekað að unnið sé að valkostagreiningu í bókun hreppsnefndar í fyrri umræðu um umsögn Innviðaráðuneytisins um álit sveitarstjórnar Skorradalshrepps þann 14. desember s.l. Sveitarstjórn Skorradalshrepps hefur einungis haldið einn vinnufund/stofu sem passar við atriði tvö við valkostagreiningarferlið. Enn á eftir að halda vinnufund/stofu og íbúafund um 1, 3 og 4 lið til að safna saman upplýsingum fyrir skilafund. Allt samtal við íbúa sveitarfélagsins og í raun líka starfsmenn, sem Innviðaráðuneytið leggur áherslu á, er eftir og eftir er að vinna þá greiningarvinnu, sbr. leiðbeiningum ráðuneytisins. Við leggjum til að haldið áfram þeirri vinnu áður en verður tekin afstaða til óformlega viðræðna við Borgarbyggð. Við þökkum áhuga Borgarbyggðar að skoða þann möguleika um óformlegar viðræður. Við leggjum áherslu á mikilvægi þess að fylgja verkferli valkostagreiningar Innviðaráðuneytisins og halda áfram með þá vinnu sem hófst við atriði nr. 2 og teknir verði fyrir þættir 1,3 og 4 Við leggjum til að oddviti boði hreppsnefnd til vinnustofu sbr. lið 1 í leiðbeiningum ráðuneytisins og svo í framhaldi til íbúafundar, sbr. 3 lið og í framhaldi þess klára liði 4 og 5.
JEE, KJ og GE leggja fram eftirfarandi bókun Meirihluti hreppsnefndar samþykkir að hefja óformlegar sameiningarviðræður á milli sveitarfélaganna Skorradalshrepps og Borgarbyggðar í því skyni að kanna fýsileika á sameiningu. Lagt er til að gengið verði til samninga við KPMG um verkefnastjórn vegna viðræðnanna. Viðræðurnar hefjist í janúar 2024 og stefnt er að því að skila niðurstöðum eigi síðar en 1. maí 2024.
Hvort sveitarfélag um sig þarf að skipa tvo fulltrúa inn í verkefnastjórn sem mun leiða verkefnið fyrir hönd sveitarstjórnanna. Lagt er til að fyrir hönd Skorradalshrepps muni sitja Jón E. Einarsson og Guðný Elíasdóttir og að sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs í Borgarbyggð verði starfsmaður verkefnastjórnar og tengiliður við verkefnastjóra. Oddvita einnig falið að athuga hjá Innviðaráðuneytinu um hæfi sveitarstjórnarmanna Skorradalshrepps við afgreiðslu þessa máls, er varðar 2. mgr. 20 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 20/2011.
Að auki vill meirihluti hafna því að verið sé að hunsa ósk meirihluta íbúa á kjörskrá um íbúafund þegar valkostargreining/tillaga verkefnisstjóra liggur fyrir um mánaðarmótin jan/feb n.k.
| Sbizhubc25323120711550.pdf | | |
|
3. 2311012 - Ákörðun útsvarsprósentu fyrir árið 2024 | |
Lagt fram, engin breyting verður gerð á áður samþykktri útvarsprósentu. | Breyting á útsvarsprósentu.pdf | | |
|
| |
4. 2309014 - Þinglýst jarðamerki og sveitarfélagamörk | |
Hreppsnefnd staðfestir framlögð jarðamerki á milli Syðstu Fossa og Efri Hrepps. Enn fremur jarðamerki á milli Syðstu Fossa annars vegar og Efri Hrepps, Horns og Mófellsstaðakots hins vegar. Nefndin felur byggingarfulltrúa að árita framlögð gögn og vinna málið áfram.
JEE vék af fundi við afgreiðslu málsins.
| M1700 2022.pdf | M340 2023.pdf | | |
|