Ágætu Skorrdælingar, við lokaafgreiðslu fjárhagsáætlunnar fyrir árið 2018 var ákveðið að lækka álagningu fasteignagjalda á A- hluta úr 0,5% í 0,46% og á B-og C hluta úr 1,32% í 1,28%. Vænti ég þess að þessi lækkun mælist vel fyrir, en áfram verður unnið að frekari lækkun. Nú hefur útsvars prósentu á Skorrdælinga verið haldið í leyfilegu lágmarki 12,44% til margra ára og ekki fyrirhuguð breyting á því. Enn er jákvæð staða á A- hluta aðalsjóðs og er hún nú jákvæð um 2.364.750.- Nokkur umræða hefur verið um möguleika á aukinni snjómoksturs þjónustu. Snjómokstur er unninn í samvinnu með Vegagerðinni og hefur hún nú ákveðið að auka smávegis við þjónustuna, eða úr 3 dögum í 5 daga á kafla af vegi 508
Að auki tekur Vegagerðin þátt í helmingagreiðslu á móti hreppnum á tilteknum vegaköflum þrjá daga í viku, en ef óskað er frekari moksturs, greiðir hreppurinn það að fullu. Þetta telur hreppsnefnd enganvegin viðunandi þjónusta frá hendi Vegagerðarinnar, en á meðan ekki er um aukna þjónustu að ræða frá þeirra hendi, mun hreppurinn reyna að bregðast við því, með auknu framlagi.
Við umræður um fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 var tekin sú ákvörðun að auka fé til snjómoksturs og reyna í samvinnu við íbúa, að meta eftir veðri og veðurhorfum, hvað moka skuli. Jafnframt var lögð áhersla á það, að í sumum tilfellum þurfi að sand- og saltbera.
Ég hef lagt fram minnisblað í heppsnefnd, þar sem lagðar eru til viðmiðunarreglur, um það hvernig snjómokstri skuli háttað.
Tekið skal sérstaklega fram, að hreppsnefnd leggur verulega áherslu á það að vegir í hreppnum séu sem best færir á öllum tímum og mun vinna í samvinnu með íbúum og Vegagerðinni að því markmiði, að svo geti verið.
Með bestu kveðjum og von um góða samvinnu;
Árni Hjörleifsson oddviti