Hreppsnefnd Skorradalshrepps hefur samþykkt tillögu að Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022, ásamt umhverfisskýrslu skv. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Tillagan, ásamt umhverfisskýrslu, var auglýst og lá frammi til kynningar á skrifstofu skipulags- og byggingarfulltrúa Skorradalshrepps, Hvanneyrargötu 3, Hvanneyri, á heimasíðu sveitarfélagsins, www.skorradalur.is og hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 105 Reykjavík frá 22. desember 2010 til 9. febrúar 2011. Frestur til að senda inn athugasemdir rann út þann 24. febrúar 2011 og bárust athugasemdir frá 11 aðilum.
Hreppsnefnd hefur afgreitt athugasemdirnar og svarað viðkomandi formlega. Gerðar voru óverulegar breytingar á auglýstri tillögu aðalskipulagsins í samræmi við afgreiðslu hreppsnefndar á innsendum athugasemdum.
Við staðfestingu Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 fellur Aðalskipulag Dagverðarness 1992-2012 úr gildi.
Aðalskipulag Skorradalshrepps 2010-2022 hefur verið sent Skipulagsstofnun, sem afgreiðir skipulagsáætlunina til umhverfisráðherra til lokaafgreiðslu.
Hreppsnefnd Skorradalshrepps harmar þann drátt sem, af óviðráðanlegum orsökum, hefur orðið á lokaafgeiðslu aðalskipulagstillögunnar.
Þeir sem óska nánari upplýsinga um Aðalskipulag Skorradalshrepps 2010-2022 og niðurstöðu sveitarstjórnar geta snúið sér til skrifstofu skipulags- og byggingarmála Skorradalshrepps, Hvanneyrargötu 3, Hvanneyri.
Skorradal 5. júlí 2012.