Fitjakirkja

Fitjakirkja er í Hvanneyrarprestakalli í Borgarfjarðarprófastsdæmi. Hún er bændakirkja. Fitjar eru við austurenda Skorradalsvatns. Kirkjan, sem þar stendur, var byggð 1896-97 sem útkirkja frá Lundi og tíu árum síðar var sóknin lögð til Hestþinga og síðan til Hvanneyrar. Í katólskum sið voru kirkjurnar helgaðar heilögum Nikulási. Bændurnir Júlíus og Stefán Guömundssynir byggðu kirkjuna. Hún er meðal síðustu kirkna, sem voru byggðar í hinum gamla, turnlausa og bábreytta stíl. Í henni voru langbekkir og hún mun hafa verið síðasta íslenzka kirkjan með því skipulagi. Bekkjaskipan var breytt í hefðbundið form árið 1950.

Lagfæring fór fram á árunum 1889-94. Hún var klædd með upprunalegri klæðningu að innan og predikunarstóll og altari úr enn eldri kirkju prýðir hana. Stóllinn var hreinsaður og nú sést á honum upprunalega málningin frá 1790. Árið 1997 var haldið upp á aldarafmæli kirkjunnar með nýrri altaristöflu eftir Þóreyju Magnúsdóttur (Æju). Hinn 21. júní 1998 var hátíðarmessa í tilefni vígsluafmælisins.

Fitjar hafa löngum verið eitt mesta stórbýli sveitarinnar, enda engjajörð mikil. Hafa stundum setið þar menn sem komið hafa að einhverju leyti við sögu þjóðarinnar eða menningu hennar. Oddur Eiríksson (1640-1719), stúdent og bóndi á Fitjum, skráði Fitjaannál, um árin 1400 -1712. Oddur samdi einnig Íslandslýsingu en hún glataðist ásamt fleiri handritum í Árnasafni í brunanum mikla í Kaupmannahöfn 1728.