Friðland í Vatnshornsskógi

Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, undirritaði í janúar 2009 friðlýsingu á 247 ha birkiskógarvistkerfis í landi Vatnshorns í Skorradal, sjá afmörkun:

Í Náttúruverndaráætlun (Nál 2004-2008) sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2004 (þskj 1842) var ákveðið að vinna að friðlýsingu fjórtán svæða á landinu „til að stuðla að traustari vernd íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi.“

Þar sem fjallað var um plöntusvæði, gróðurfar og jarðfræði í áætluninni var lagt til að Vatnshornsskógur í Skorradal yrði  friðaður sem  „sérstætt gróðurfar“.

Með undirritun umhverfisráðherra á auglýsingu um friðun Vatnshornsskógar í janúar 2009, varð svæðið annað í röðinni af þeim fjórtán sem samþykkt var að vinna að friðlýsingu á, samkvæmt Nál 2004-2008.

Í  auglýsingu um friðlandið segir m.a.:
Markmiðfriðlýsingarinnar er að vernda náttúrulegan, lítt snortinn og hávaxinn birkiskóg með gróskumiklum botngróðri, ásamt erfðaeiginleika og erfðafjölbreytileika íslenska birkisins. Á svæðinu er líffræðileg fjölbreytni mikil og þar er fundarstaður sjaldgæfra tegunda, m.a. eini fundarstaður fléttutegundarinnar flókakræðu (Alectoria sarmentosa ssp. vexillifera). Meðal markmiða friðlýsingarinnar er að tryggja að líffræðileg fjölbreytni vistgerða og vistkerfa svæðisins verði viðhaldið með því að vernda tegundir dýra, plantna og annarra lífvera ásamt erfðaauðlindum sem tegundirnar búa yfir og búsvæði þeirra.

Ennfremur er það markmið friðlýsingarinnar að treysta rannsókna- útivistar- og fræðslugildi svæðisins.

Óheimilt er að spilla náttúrulegu gróðurfari, trufla dýralíf og hrófla við jarðmyndunum og öðrum náttúruminjum í friðlandinu.

Vatnshornsskógur skal vaxa villtur en ekki hirða eins og um nytjaskóg væri að ræða. Þó er heimilt að grisja skóginn í þágu náttúruverndar og útivistar í samræmi við markmið friðlýsingarinnar, svo sem vegna stígagerðar og grisjun meðfram stígum.

Vernda skal náttúrulegt gróðurfar og skapa skilyrði til náttúrulegrar endurnýjunar birkis á svæðinu, en ekki skal raska framvindu skógarins.  Við endurheimt birkis og umsjón friðlandsins að öðru leyti skal tryggt að ekki sé raskað líffræðilegum fjölbreytileika á svæðinu. Plöntun annarra trjátegunda en staðarafbrigðis birkis er óheimil. Óheimilt er að rækta framandi plöntutegundir í friðlandinu sbr. reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000.

Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi eru óheimilar nema með leyfi Umhverfisstofnunar, Skógræktar ríkisins og sveitarstjórnar Skorradalshrepp en öll breyting á landi skal vera í samræmi við samþykktar skipulagsáætlanir, auglýsingu um friðlýsingu Vatnshornsskógar og verndaráætlun.  Jarðrask innan friðlýsta svæðisins, sem truflað getur vistkerfiseiginleika skógarins, er óheimilt. Óheimilt er að beita búpeningi innan friðlýsta svæðisins.

Að höfðu samráði við Umhverfisstofnun eru heimilar nauðsynlegar aðgerðir til verndar náttúrulegu gróðurfari svæðisins og þess að almenningur geti notið hins friðlýsta svæðis, t.d. með lagningu stíga, uppsetningu fræðsluskilta, bekkjum og öðrum búnaði í þágu náttúruverndar og útivistar þar sem því verður við komið.

Umhverfisstofnun hefur frumkvæði að gerð verndaráætlunar fyrir svæðið þar sem friðlýsingarskilmálar og framkvæmdir tengdar þeim eru útfærðar nánar.

Óheimilt er að urða sorp í friðlandinu eða losa jarðefni eða annan úrgang á svæðinu. Einnig er óheimilt að dreifa lífrænum úrgangi, þ.m.t. lífrænum úrgangi sem getur borið með sér fræ af óþekktum uppruna. Óheimilt er að kveikja eld í friðlandinu.

Almenningi er heimil för um svæðið og dvöl þar í lögmætum tilgangi, enda sé góðrar umgengni gætt. Umferð vélknúinna ökutækja í friðlandinu er aðeins leyfð á vegi. Ríðandi mönnum er heimil för um svæðið eftir afmörkuðum reiðleiðum og veg. Heimilt er að fara á reiðhjólum um friðlandið en fylgja skal vegi og stígum, ætluðum til hjólreiða, svo ekki hljótist af náttúruspjöll. Óheimilt er að vera með lausa hunda í friðlandinu.

Notkun skotvopna er bönnuð á svæðinu nema til minkaveiða á grundvelli  laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.

Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum sbr. lög um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Skorradalshreppur, sem landeigandi  að 16,439% hluta Vatnshorns,undirritaði einnig yfirlýsingu vegna friðlýsingarinnar.

Þá  gerðu Umhverfisstofnun, og Skógrækt ríkisins, sem landeigandi að 83,651% hluta Vatnshorns með sér 10 ára samning  (endurskoðist fyrir árið 2014) um umsjón og rekstur friðlandsins í Vatnshornsskógi.  myndir

Í samningi UST og Sr um umsjón og rekstur friðlandsins segir m.a.
að Umhverfisstofnun skuli í samstarfi við Skógrækt ríkisins vinna að gerð verndaráætlunarog hafa samstarf um útgáfu fræðsluefnis (bæklinga/skilti) fyrir friðlandið í Vatnshornsskógi í samræmi við lög um náttúruvernd, nr. 44/1999. Við gerð verndaráætlunar eiga  Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins að hafa samráð við Skorradalshrepp.

Skógrækt ríkisins(skógarvörður á Vesturlandi) sér um daglegt eftirlit, umsjón og rekstur með friðlandinu og er heimilt að taka þóknun fyrir þjónustu sem veitt er innan friðlandsins svo sem leiðsögn um svæðið.

Skógrækt ríkisins skal gefa Umhverfisstofnun skýrsluár hvert um ástand, framkvæmdir og aðra starfsemi í friðlandinu þar sem koma eiga fram upplýsingar um veittar undanþágur (sbr. 10.gr. auglýsingar um friðlandið), ástand lands og lífríkis, fræðslu, gestafjölda, umgengni, framkvæmdir og kostnað af þeim og annað sem kann að skipta máli varðandi friðlandið.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að umsjónar- og rekstraraðili uppfylli samningsskuldbindingarnar, þær reglur sem gilda um náttúruverndarsvæðið sbr. auglýsingu um friðlýsinguna í Stjórnartíðindum,  reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000, 30. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999 og verndaráætlun.

Gestir firðlandsins eru hvattir til að koma ábendingum um hvaðeina sem svæðið varðar til

  1. Skógræktar ríkisins
  2. Skorradalshrepps
  3. Umhverfisstofnunar

Þá má einnig setja ábendingar inn á vef þennan hér