„Lífsgangan – frá hjalla til hjalla“
Pílagrímaganga um Síldarmannagötur að
Fitjakirkju í Skorradal, sunnudaginn 28. Júní 2009
Sunnudaginn 28. júní verður pílagrímaganga um Síldarmannagötur úr Hvalfirði að Fitjakirkju í Skorradal. Gangan er „lífsganga – frá hjalla til hjalla“ þar sem landslagið er notað sem grundvöllur þess að förumenn „líta yfir farinn veg“ í innri og ytri merkingu.
Hulda Guðmundsdóttir á Fitjum sér um ferðina, en presthjónin Arnfríður Guðmundsdóttir og Gunnar Rúnar Matthíasson munu sjá um leiðarstef göngunnar að þessu sinni.
Orðið „pílagrímur“ eða „vallari“ merkir förumaður/göngumaður sem er á leið til helgs staðar með staf sinn og „skreppu“ sem er annað orð yfir nestismalinn sem er hluti af búnaði hvers förumanns.
„Pílagrímaferð“ má almennt skilgreina sem för til helgidóms eða helgistaðar í andlegum tilgangi og með trúarlegt markmið. Á fyrri öldum voru slíkar ferðir sjálfsagður þáttur trúarlegs atferlis, þar sem gangan var ýmist iðrunar- og yfirbótarganga eða þakkarganga. Vallarinn leitaði þá ýmist náðar eða líknar með för sinni, eða hann vildi þakka lífsgæfu eða náð sem hann upplifði, eða hafði notið í lífi sínu.
Pílagrímaferðir hér á landi tíðkuðust fyrst og fremst til Hóla og Skálholts þar sem þjóðardýrlingarnir hvíldu, en för pílagríma var jafnan stefnt til helgra staða þar sem dýrlingar höfðu komið við sögu. Svo virðist sem flestar íslenskar kirkjur hafi á vígsludegi sínum jafnframt verið helgaðar dýrlingum og lýstar vænlegar til vallarferða. Þannig var Fitjakirkja í Skorradal helguð heilögum Nikulási og getur skýringin falist í nálægð hennar við þjóðleiðirnar um fjallvegina, en forn tengsl gætu líka verið við kauphöfn innst í Hvalfirði og kaupstaðaferðir allt frá landnámi Ávangs hins írska í Botnsvogi.[1]
Þeir sem áhuga hafa á ferðinni 28. júní geta snúið sér til Huldu í síma 8932789, eða með tölvupósti á netfangið: khuldag@hive.is
[1]Sjá FÍ árbók 2004, eftir Freystein Sigurðsson, s. 113 og Seiður lands og sagna III, eftir Gísla Sigurðsson, s. 195-199.