Úti, inni og allt um kring á eyðibýlinu Stálpastöðum í Skorradal, stendur yfir ljósmyndasýningin Eyðibýli í Skorradal allt árið.
Sýningin, sem er samvinnuverkefni Kristínar Jónsdóttur, ljósmyndara á Hálsum, og Huldu Guðmundsdóttur á Fitjum, var opnuð við hátíðlega athöfn laugardaginn 11. júní og mun standa fram í ágúst.
Á sýningunni gefur að líta tuttugu ljósmyndir í lit sem Kristín hefur unnið að með nokkrum hléum frá árinu 2014. „Við fengum styrki frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands, Skorradalshreppi, Tryggva Vali Sæmundssyni (halstak.is) og Skógrækt ríkisins sem leyfði okkur að nýta gamla bæjarhólinn á Stálpastöðum. Myndirnar eru allar af eyðibýlum í Skorradal og teknir á mismunandi árstíðum.“
Kristín, sem útskrifaðist sem ljósmyndari frá Tækniskólanum í Reykjavík árið 2011, hefur síðan tekið jöfnum höndum landslagsmyndir, portret og brúðkaupsmyndir ásamt því að sinna búi og börnum heima í Skorradal þar sem hún hefur verið búsett síðastliðin þrettán ár. Hún segist strax hafa heillaðist af eyðibýlunum átta sem þar eru á víð og dreif.
„Á sýningunni eru tuttugu ljósmyndir í lit, þær stærstu 130 sem x 87 sm, og minnstu 40 sm x 50. Ljósmyndirnar utandyra eru prentaðar á álplötur sem þola bæði veður og vinda.“
Kristín segir marga hafa lagt hönd á plóg við uppsetningu sýningarinnar, enda sé töluvert umstang að setja upp sýningu af þessu tagi. „Hulda var helsti drifkrafturinn, en hún sá um alla pappírsvinnu, sótti um styrki, sá um að snyrta svæðið og þvíumlíkt. Þá kom sér vel að eiginmaður minn, borinn og barnfæddur Skorrdælingur, rekur hér gröfufyrirtæki og gróf niður staura til að halda myndunum á sínum stað.“
Til að rata á réttan stað gefur Kristín upp GPS hnitin 64°31.280 N 21°26.567 W og bendir á að sýningargestir þurfi að ganga um
150 metra upp gamla vegarslóðann heim að bænum. „Gott er mæta í þokkalegum gönguskóm því svæðið getur verið misblautt og ekki er verra að vera með flugnanet þar sem oft er mikið af flugu á þessum slóðum,“ ráðleggur Kristín og hvetur gesti til að ganga vel um svæðið og virða gamla bæjarhólinn.
Ljósmyndirnar á sýningunni eru til sölu og eru upplýsingar um verð í sýningarskrá á staðnum.