Þann 13. ágúst verður Pakkhúsið í Vatnshorni vígt eftir endurgerð þess.
Athöfnin er einn af hápunktum viðburða á Alþjóðlegu ári skóga hér á landi, enda er um að ræða fyrsta húsið sem alviðað er íslensku timbri og er viðburðurinn því sögulegur sem slíkur.
Skógrækt ríkisins gefur timbur frá Stálpastöðum í Skorradal til verksins, Stefán Ólafsson á Litlu-Brekku hefur veg og vanda af endursmíðinni og Unnsteinn Elíasson hleðslumeistari frá Ferjubakka sér um vegghleðslu undir húsið.
Félagsskapurinn ,,Vinir Pakkhússins“ aflar fjár til verksins.
Í tilefni af vígslu Pakkhússins koma norskir gestir frá Skogselskapet Bergen og Hordaland í Noregi til Íslands, m.a. Loftur Þór Jónsson fylkisskógameistari í
Hordalandi, ásamt Lars Sponheim fylkisstjóra og verða viðstaddir vígsluna, en
Bjarni Bjarnarson frá Vatnshorni (síðar kenndur við Grafarholt) var við nám í jarðyrkjuskólanum í Stend í Hordalandi um 1880 og er talinn hafa flutt heim með sér norskt tilsniðið timbur til Pakkhússins.
Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson mun afhjúpa hið endurgerða Pakkhús, sem fyrsta húsið alviðað úr íslenskum skógi. Svo skemmtilega vill til að afi Ólafs Ragnars, Kristgeir Jónsson bjó um um aldamótin 1900 í Bakkakoti sem er næsti bær við Vatnshorn og Grímur faðir hans fæddist þar, nokkru eftir að þetta elsta hús í hreppnum var upphaflega reist.