Friðlýsing Vatnshornsskógar

Fimmtudaginn 29. janúar sl. kom Þórunn Sveinbjarnardóttir þáverandi umhverfisráðherra í Skorradalinn til þess að skrifa undir friðlýsingu Vatnshornsskógar í samræmi við þingsályktun um náttúruverndaráætlun. Friðlýsingin var unnin í samvinnu við Skorradalshrepp og Skógrækt ríkisins.
Meðal markmiða friðlýsingarinnar er að tryggja að líffræðileg fjölbreytni vistgerða og vistkerfa svæðisins verði viðhaldið með því að vernda tegundir dýra, plantna og annarra lífvera ásamt erfðaauðlindum sem tegundirnar búa yfir og búsvæði þeirra. Ennfremur er það markmið friðlýsingarinnar að treysta rannsókna- útivistar- og fræðslugildi svæðisins. Heildarflatarmál friðlýsta svæðisins er 250 ha.