GRÓÐURSETNING TIL HEIÐURS VIGDÍSI FINNBOGADÓTTUR

Gróðursetningarátak mun fara fram í öllum sveitarfélögum landsins laugardaginn 27. júní n.k. Gróðursett verða þrjú birkitré, eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir ófæddar kynslóðir. Gróðursetningin er til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni þess að 35 ár eru liðin frá því að hún var kjörin í embætti forseta Íslands, fyrst kvenna í heiminum sem þjóðkjörin forseti.

Um verkefnið sameinast Skógræktarfélag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga meðal annarra. Í Skorradalshrepp verða trén gróðursett í landi Stálpastaða n.k. laugardag kl. 17:00.

Það verða þau Ástrún Björnsdóttir (7 ára) sem gróðursetur fyrir stúlkur, Reynir Skorri Jónsson (6 ára) sem gróðursetur fyrir drengi og Árni Hjörleifsson, oddviti Skorradalshrepps sem gróðursetur fyrir ófæddar kynslóðir.