Prófun á boðunarkerfi vegna gróðurelda í Skorradal

Í gær var haldinn fjölmennur fundur á Hvanneyri þar sem drög að viðbragðsáætlun vegna gróðurelda í Skorradal voru kynnt fyrir íbúum og sumarhúsaeigendum. Sveitarstjórn Skorradalshrepps, lögregla og almannavarnanefnd Borgarfjarðar og Dala ásamt slökkviliði Borgarbyggðar höfðu frumkvæðið að því að lagt var að stað í þetta verkefni með aðstoð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Mannvirkjastofnunar. Skógrækt ríkisins og Vegagerðin hafa einnig komið að þessari vinnu.

Markmið áætlunarinnar er að tryggja skipulögð viðbrögð viðbragðsaðila, koma í veg fyrir eða takmarka tjón á gróðri og eignum og að þolendum slíkra hamfara berist öll nauðsynleg aðstoð á sem skemmstum tíma. Mörg sumarhúsahverfi eru í umdæmi lögreglustjórans í Borgarfirði og Dölum og er ætlunin að gera samskonar áætlanir fyrir öll slík hverfi í umdæminu.

Komi upp miklir gróðureldar kann að þurfa að rýma svæði í dalnum. Boðum um rýmingu verður komið til fólks með SMS sendingum frá Neyðarlínunni. Viðbragðsaðilar eru sendir á staðinn til að fylgja rýmingu eftir. Við slíkar aðstæður skal fólk einnig fylgjast með upplýsingum í fjölmiðlum.

Laugardaginn 16. júní kl.13:00 er ætlunin að prófa virkni boðunarkerfisins. Þá verða send út boð á alla GSM síma sem eru tengdir GSM sendum í og við Skorradal. Búast má við að boðin fari nokkuð víðar þar sem sendar sem dekka Skorradal eru einnig að ná inn á önnur svæði. Þeir sem fá boð í síma sína eiga

ekki að grípa til neinna aðgerða og ekki svara SMS sendingunni.

Viðbragðsaðilar á svæðinu hafa þurft að takast á við verkefni af þessu tagi og var horft til reynslunnar frá því á Mýrum vorið 2006 þegar barist var við gróðurelda í 3 daga. Önnur lögregluumdæmi hafa einnig lýst áhuga á að fara í samskonar vinnu vegna sumarhúsahverfa á þeirra svæði. Þegar þessari áætlun er lokið verður auðvelt að nota hana sem grunn að viðbragðsáætlun vegna gróðurelda hvar á landinu sem er.

Ekki má gleyma því að eldvarnir byrja heima. Mikilvægt er að á öllum heimilum og sumarhúsum séu eldvarnir í lagi. Grunnatriðin eru alltaf að gæta þess að reykskynjarar og slökkvitæki séu til staðar og í lagi.

Á vef Mannvirkjastofnunar er að finna mjög góðar upplýsingar um eldvarnir.

Við þau hús þar sem nægt vatn er, er gott að hafa garðslöngu sem nær u.þ.b. tvo hringi í kringum húsið. Á garðslöngunni er kostur að hafa hraðtengi við krana. Slangan þarf að vera á vísum stað. Með henni má verja hús og nánasta umhverfi og slökkva elda sem eru á byrjunarstigi. Umgengni umhverfis hús og í skógi skiptir miklu máli. Undir veröndum sumarhúsa á ekki að safna rusli eða geyma bensín, gaskúta, hjólbarða, áburð eða annan óþarfa eldsmat.

Heitar vélar sem settar eru niður í þurran gróður skapa íkveikjuhættu

(mótorsagir, sláttuorf o.þ.h.).

Sýna þarf mikla varúð við alla meðferð elds. Reykingar og bálkestir geta valdið gróðurbruna. Enginn má halda eða standa fyrir brennu nema að fengnu skriflegu leyfi lögreglustjóra. Einstaklingur eða lögaðili skal sækja skriflega um slíkt leyfi til lögreglustjóra í því umdæmi sem brenna er fyrirhuguð, með minnst 15 daga fyrirvara. Bálköst skal ekki staðsetja þar sem hætta er á að eldur eða neistaflug geti kveikt í gróðri. Á vorin er gjarnan hugað að viðhaldi húsa og hluti af því er að viðar- og fúaverja grindverk, sólpalla og aðra viðarfleti. Eftir slíka vinnu getur verið hætta á sjálfsíkviknun. Það getur gerst þegar olíublautum tuskum, sem notaðar hafa verið við að viðar- og fúaverja timburfleti, er safnað saman í haug eða poka. Við slíkar aðstæður verður til orka í formi hita og við réttar aðstæðu

getur komið upp eldur. Til að koma í veg fyrir þetta skal breiða sem mest úr tuskunum þannig að lofti vel um þær. Þegar þær hafa þornað er í lagi að safna þeim saman. Það er ekki hættulaust að grilla og árlega verða eldsvoðar og brunasár afleiðing grillnotkunar. Hægt er að minnka líkurnar á slysum með því að fara varlega Gætið þess að fylgjast alltaf með grillinu á meðan það er í notkun. Hafið möguleika á að slökkva í grillinu með garðslöngu, fötu með vatni eða handslökkvitæki.

Nánari upplýsingar og ítarefni um eldvarnir heimilisins er hægt að finna í handbók Eldvarnabandalagsins. Hana má nálgast á vef Mannvirkjastofnunar eða með því að fylgja þessari slóð

http://www.mannvirkjastofnun.is/slokkvilid/eldvarnabandalagid/eigid-eldvarnaeftirlit/

Nánari leiðbeiningar um atriði sem þarf að hafa í huga varðandi grill og

viðar/fúavörn er líka að finna á vef Mannvirkjastofnunar sjá hér

http://www.mannvirkjastofnun.is/slokkvilid/forvarnir/sumarid/grill/

og hér

http://www.mannvirkjastofnun.is/slokkvilid/forvarnir/sumarid/vidar—fuavorn/